CFP: Hugur 2019

Submission deadline: October 15, 2018

Topic areas

Details

Hugur, tímarit um heimspeki lýsir eftir efni í 30. árgang, 2019. Þema Hugar 2019 verður „Saga“.

Efnið má nálgast á ýmsa vegu og ber að túlka í vítt. Þannig mætti meðal annars fjalla um heimspekisögu frá fornöld til 20. aldarinnar, sögu heimspekinnar á Íslandi, heimspekileg álitamál innan sagnfræðinnar og heimspekilegar kenningar sem fjalla um eða höfða til sögunnar með einum eða öðrum hætti. Meðal þeirra spurninga sem fallið gætu undir þemað eru (en athugið að listinn er ekki tæmandi):

-          Hvaða hugsuðir hafa ekki fengið nægilega umfjöllun í heimspekisögunni, hvað veldur þessu og hvernig er best að bregðast við þessari stöðu?

-          Með hvaða hætti hafa konur sérstaklega verið útilokaðir úr „kanónunni“ í heimspeki og hvernig getum við leiðrétt það?

-          Er mögulegt og eftirsóknarvert að „endurskrifa“ söguna, til dæmis til að auka hlut kvenna, eða ber okkur að nálgast vandann með öðrum hætti?

-          Hvaða sögulegu heimspekingar hafa verið misskildir eða mistúlkaðir og með hvaða hætti hefur það verið gert? Hvaða heimspekikenningar hafa að ósekju fallið í gleymskunnar dá?

-          Með hvaða hætti eru tilgátur í sagnfræði sannreyndar eða rökstuddar og hvað felst í því að „skýra“ sögulegan atburð? Hver er staða sagnfræðinnar innan fræðanna?

-          Hvaða hlutverki gegnir saga vísinda innan vísindaheimspekinnar og hvaða segir vísindasagan okkur um stöðu vísindanna nú á dögum?

Auk þessa er að sjálfsögðu við hæfi að fjalla um tiltekna heimspekinga eða heimspekilegar kenningar sem hafa komið fyrir í heimspekisögunni.

Efni 30. árgangs afmarkast ekki við þemað. Greinar og þýðingar um margvísleg heimspekileg efni eru velkomnar. Allar frumsamdar greinar sem birtast í Hug, hvort sem þær eru utan eða innan þema, fara í gegnum nafnlausa ritrýni og ákvarðanir um birtingu eru teknar á grundvelli hennar. Viðmiðunarlengd greina er 8000 orð að hámarki. Höfundar eru hvattir til að kynna sér leiðbeiningar um frágang sem finna má á Heimspekivefnum (mappa undir fyrirsögninni FÁH/Hugur).

Hugur birtir einnig ritdóma um nýlega útkomnar bækur um heimspeki á íslensku. Hámarksorðafjöldi bókadóma er 2000 orð, en viðmiðunarlengd er 1500 orð.

Þá birtir Hugur einnig þýðingar á erlendum verkum, svo sem greinum og bókarköflum. Þeir sem hafa hug á að þýða efni fyrir Hug eru beðnir um að hafa samband fyrirfram við ritstjóra.

Skilafrestur efnis fyrir Hug 2019 er 15. október 2018. Efni skal senda til ritstjóra, Finns Dellsén, [email protected]. Þangað má einnig senda fyrirspurnir um hvaðeina sem snýr að Hug 2019.

Supporting material

Add supporting material (slides, programs, etc.)